Bahá‘í trúin er upprunnin í Persíu (Íran) 19. aldar. Höfundur hennar, Bahá‘u‘lláh, lýsti því yfir að hann væri opinberandi Guðs fyrir okkar tíma. Starf hans og boðskapur væri beint framhald af starfi og boðskap fyrri opinberenda Guðs, þar á meðal Krishna, Saraþústra, Búddha, Móse, Jesú og Múhammeðs. Þessir opinberendur sögðu fyrir um framtíðarríki friðar, réttlætis og einingar á jörðinni. Bahá‘u‘lláh kennir að þessi tími fari nú í hönd og þjóðir jarðar muni sameinast í friði og einni sameiginlegri trú í skjóli heimsskipulags hans.
Bahá’íar eru í dag um sex milljónir talsins og búa í meira en 200 löndum. Þótt bahá’í trúin sé sprottin úr islömskum jarðvegi er hún ekki hluti af islam heldur ný trúarbrögð, líkt og kristni er ekki hluti af gyðingdómi þótt hún sé upprunnin meðal Gyðinga. Bahá‘í trúin á sín eigin helgirit, tilbeiðsluhús, stjórnskipulag og tímatal. Rit Bahá‘u‘lláh hafa verið þýdd á yfir 800 tungumál.
Bahá‘í samfélaginu má lýsa sem smækkaðri mynd af heiminum. Fjöldi fólks frá meira en 2100 kynþáttum, ættbálkum og þjóðerni tilheyrir einu sameinuðu samfélagi sem teygir anga sína til nær allra landa heims. Þótt bahá’í trúin sé yngstu trúarbrögð heims er hún á ýmsan hátt frábrugðin öðrum trúarbrögðum. Henn hefur tekist að viðhalda órofa einingu sinni án þess að klofna í sértrúarsöfnuði. Í henni er engir prestar, safnaðarleiðtogar eða einstakir forystumenn heldur er hún skipulögð sem alþjóðlegt samfélag sem byggir á níu manna ráðum sem eru kosin í lýðræðislegum kosningum til að hafa umsjón með málefnum bahá’í samfélaganna í þjóðlöndum, bæjar- og sveitarfélögum. Æðsta stofnun trúarinnar er Allsherjarhús réttvísinnar sem hefur aðsetur í Haifa í Ísrael.
|