Það er athyglisverður þáttur bahá’í trúarinnar að hún hefur varðveitt órofa einingu sína frá upphafi og ekki klofnað í söfnuði eða sértrúarhópa. Þetta er einstætt í sögu heimstrúarbragðanna. Ástæðan er sú að Bahá‘u‘lláh skildi eftir handskrifaða erfðaskrá þar sem kveðið er skýrt á um stjórn málstaðarins eftir hans dag og túlkun bahá‘í helgirita. Erfðaskrá Bahá‘u‘lláh felur í sér sáttmála hans við alla þá sem játa trú hans eftir hans dag. Samkvæmt erfðaskránni fékk elsti sonur hans, ‘Abdu‘l-Bahá, heimild til að túlka rit hans og fara með stjórn málstaðarins til dauðadags 1921. ‘Abdu‘l-Bahá veitti dóttursyni sínum, Shoghi Effendi, þennan rétt eftir sinn dag. Samkvæmt fyrirmælum Bahá‘u‘lláh fluttist endanleg yfirstjórn málstaðarins til Allsherjarhúss réttvísinnar eftir andlát Shoghi Effendi. Kosið var til Allsherjarhúsins í fyrsta sinn árið 1963 og síðan á fimm ára fresti.
'Abdu'l-Bahá lét einnig eftir sig skýra og ítarlega erfðaskrá þar sem sáttmáli Bahá’u’lláh er skýrður og útfærður. Í þessu skjali útnefndi 'Abdu'l-Bahá elsta sonarson sinn, Shoghi Effendi Rabbaní, vörð bahá’í trúarinnar og verndara hennar. Bahá’u’lláh hafði sagt fyrir um þessa stöðu og gefið fyrirmæli um að sá sem henni gegndi hefði umboð til að túlka kenningar trúarinnar.
Shoghi Effendi fæddist í Akká 1. mars 1897 og ólst upp undir umsjá og leiðsögn 'Abdu'l-Bahá. Hann stundaði nám við ameríska háskólann í Beirut og síðan við Oxford háskóla á Englandi. Hann náði þar framúrskarandi valdi á enskri tungu og þekkingu á menningu Vesturlanda. Undir leiðsögn Shoghi Effendi varð bahá’í trúin að raunverulegum heimstrúarbrögðum. Þegar 'Abdu'l-Bahá féll frá 1921 voru bahá’íar um 100.000 talsins. Flestir voru persneskir frá Íran og Austurlöndum nær. Fáeinir bahá’íar voru á Indlandi, í Evrópu og Norður-Ameríku. Trúin átti sér þá fylgjendur í 35 löndum. Um það bil 36 árum seinna, þegar Shoghi Effendi féll frá 1957, voru bahá’íar um 400 þúsund talsins í meira en 250 löndum og hjálendum.
Bréf frá Shoghi Effendi mörkuðu einnig stefnu varðandi kosningakerfi og hópsamráð sem eru eitt helsta sérkenni bahá’í trúar. Hann ritaði bréf til ungra bahá’í stofnana og skýrði hvernig kenningar Bahá’u’lláh lúta að öllum mannlegum málefnum, allt frá fjölskyldunni til stjórnunar heimsins. Hann fjallaði um samband og skyldleika bahá’í trúarinnar og annarra heimstrúarbragða. Í skýrum og kraftmiklum ritverkum sínum skilgreinir hann viðhorf trúarinnar til mála sem snerta siðfræði, guðfræði og sagnfræði.
Bréf Shoghi Effendis til bahá’í heimsins voru stöðug uppspretta hvatningar og stuðnings. Enda þótt bahá’í trú njóti virðingar á okkar dögum voru þeir sem aðhylltust trúna í upphafi 20. aldar ýmist taldir grunsamlegir eða urðu aðhlátursefni. Skýr sýn Shoghi Effendi á trúna sem opinberun Guðs fyrir okkar tíma og fullvissa hans um lokasigur hennar varð til þess að efla nýjar kynslóðir bahá’ía sem þrátt fyrir fámenni hefur fært öllu mannkyni boðskap Bahá’u’lláh. Shoghi Effendi gegndi embætti Varðar trúarinnar í 36 ár þangað til hann lést. Hann þýddi fjölmörg rit Bahá‘u‘lláh og ‘Abdu‘l-Bahá á ensku og útskýrði merkingu þeirra. Hann skrifaði yfir 15.000 bréf til bahá’ía um allan heim þar sem hann hvatti til stofnunar svæðis- og þjóðarráða og gerði áætlanir um kennslu og útbreiðslu bahá‘í kenninga um allan heim. Hann skapaði fagra og glæsilegu umgjörð um Heimsmiðstöð bahá’í trúarinnar á Karmelfjalli, lét fullgera grafhýsi Bábsins og reisa Alþjóðlega bahá’í minjasafnið. Shoghi Effendi teiknaði einnig og hannaði hina fögru og víðfrægu garða í Bahjí og í hlíðum Karmelfjalls. Hann lést í London 1957 og er jarðsettur þar. |