Á Íslandi eru bahá’íar um rétt rúmlega 350 talsins af að minnta kosti 14 þjóðernum. Bahá’í samfélagið nýtur fullrar viðurkenningar sem trúfélag utan Þjóðkirkjunnar. Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi var stofnað árið 1972 og hefur umsjón með málefnum trúarinnar á landsvísu. Bahá’u’lláh var, að því best er vitað, fyrst getið á prenti hér á landi árið 1908, er Þórhallur Bjarnarson, síðar biskup, fór um hann svofelldum orðum:
„Fyrir fjörutíu árum reis upp dýrlegur kennimaður og guðsvottur í Persalandi, og hét hann Baha Ullah. Eins og við mátti búast, dó hann píslarvættisdauða - andaðist í tyrkneskri prísund 1892. Margir fylgjendur hans hafa látið lífið fyrir trúarskoðanir sínar, en þær breiðast því betur út. Kenningar hans eru að mörgu leyti svipaðar kenningum kristindómsins eins og mannúðlegast og göfugast er með þær farið.“ (‘Persneskur Messías’, Nýja Kirkjublaðið, 3. tbl., 3. árg.)
Árið 1924 kom til landsins bandarísk kona, Amelia Collins að nafni. Í stuttri heimsókn sinni kynntist hún Hólmfríði Árnadóttur, sem þýddi og undirbjó útgáfu fyrstu bahá’í bókarinnar á íslensku: Bahá’u’lláh og nýi tíminn. Hólmfríður var um langt skeið safnvörður í Listasafni Einars Jónssonar. Hún varð síðar fyrsti bahá’íinn á Íslandi. Ellefu árum síðar, eða 1935, kom þekktur bahá’í ferðakennari til landsins, Martha Root að nafni. Hófust þá fyrstu opinberu kynningar á bahá’í trúnni hérlendis með fyrirlestri í Háskólanum, viðtali í útvarpi og greinum í blöðum.
Fyrsta þjóðrráð bahá'ía á Íslandi 1972
Í tíu ára alþjóðlegri kennsluáætlun, sem Vörður bahá’í trúarinnar, Shoghi Effendi, hleypti af stokkunum, fékk bahá’í samfélagið í Kanada það verkefni að sjá um þróun bahá’í trúarinnar á Íslandi. Árið 1958 kom fyrsti kanadíski brautryðjandinn til landsins og settist hér að. Fleiri fylgdu á eftir. Þetta hafði það í för með sér að hægt var að stofna fyrsta andlega svæðisráðið hér á landi með aðsetri í Reykjavík árið 1965. Upp úr því varð þróunin örari. Bahá’í hjónavígsla fengu löggildingu og fyrstu bahá’íarnir giftu sig hérlendis árið 1967. Eins og fyrr segir fékk bahá’í trúin formlega viðurkenningu stjórnvalda árið 1975. Síðar fékkst viðurkenning Menntamálaráðuneytisins á bahá’í helgidögum fyrir skólanema. Árið 1971 voru stofnuð þrjú andleg ráð til viðbótar við ráðið í Reykjavík: í Kópavogi, Hafnarfirði og Keflavík. Í framhaldi af því var hægt að kjósa í fyrsta sinn til Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Íslandi árið 1972 og hefur það verið kosið á árlegu landsþingi upp frá því. Á Íslandi eru nú sex andleg svæðisráð starfandi undir umsjá og leiðsögn Andlega þjóðarráðsins. Bahá’íar erubúsettir víða um land.
Þjóðarmiðstöð og skrifstofa bahá'ía á Íslandi er að Öldugötu 2, 101 Reykjavík. Síminn er 567 0344. Tölvupóstur: nsa@bahai.is. |