Edward G. Browne, fræðimaður frá Cambridge, sem komst í kynni við 'Abdu'l-Bahá 1890 lýsir honum þannig:
"Sjaldan hef ég séð mann sem með útliti sínu einu saman hefur haft jafn sterk áhrif á mig. Hár, sterkbyggður, teinréttur, með hvítan túrban og í hvítum kufli, svart liðað axlarsítt hár, breitt og kröftugt enni sem gaf til kynna skarpar gáfur og ósveigjanlegan viljastyrk, haukfrán augu og sterka en viðfeldna andlitsdrætti. Þetta var það sem ég upplifði á mínum fyrsta fundi með 'Abbás Effendi, meistaranum, eins og hann er kallaður. Mælskari mann, rökfimari, fundvísari á myndrænar samlíkingar, gjörkunnugari helgiritum gyðinga, kristinna manna og múslima, held ég að vart verði fundinn, jafnvel meðal þess mælska, skarpskyggna og næmgeðja kynþáttar, sem hann tilheyrir. Þessir eiginleikar ásamt fasi, sem er hvorutveggja í senn tiginlegt og innilegt, gerðu það að verkum að ég hætti að undrast og þá virðingu sem hann naut langt utan samfélags fylgjenda föður hans. Um mikilleik þessa manns og vald hans gat enginn efast sem litið hafði hann augum."
‘Abdu’l-Bahá andaðist árið 1921, en þá hafði hann treyst undirstöður bahá’í trúarinnar og breitt hana út til mun fleiri manna. Herbergi norðan til í helgidómi Bábsins, þar sem hann er jarðsettur, er einn þeirra staða sem pílagrímar fara til þegar þeir heimsækja heimsmiðstöð trúar sinnar.
|