HEIMASÍÐA BAHÁ'ÍA
Í REYKJANESBÆ
              „Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess.“ Bahá'u'lláh
 
 
 
 

 
'ABDU'L-BAHÁ

'Abdu'l-Bahá (1844-1921) var sonur Bahá'u'lláh og fylgdi honum í útlegð og fangavist. Hann var fangi í samfleytt 45 ár uns hann var leystur úr haldi eftir byltingu Ungtyrkja á fyrsta áratug 20. aldar.
'Abdu'l-Bahá fæddist 23. maí 1844, sömu nóttina og Báb lýsti yfir köllun sinni. Á barnsaldri þjáðist hann með föður sínum og fjölskyldu þegar fyrsta ofsóknarbylgjan gegn fylgjendum Bábs reið yfir. Hann var átta ára þegar Bahá’u’lláh var varpað í fangelsið í Síyáh Chál (Svarta pyttinn). Hann var mjög náinn föður sínum, tókst á hendur fyrir hann margskonar verkefni og sinnti þeim mikla fjölda gesta sem kom til að hitta föður hans að máli. Þegar flestir bahá’í fangarnir í Akká sýktust af taugaveiki, malaríu og blóðsótt, annaðist 'Abdu'l-Bahá sjúklingana, þvoði þeim og mataði, en hvíldist ekki sjálfur. Að lokum örmagnaðist hann og lá fárveikur milli heims og helju í tæpan mánuð. Vegna þeirra eiginleika sjálfleysis, þekkingar og djúprar auðmýktar sem einkenndu 'Abdu'l-Bahá var hann ávallt nefndur  "meistarinn" meðal bahá‘ía og þannig er vitnað til hans enn í dag.

Þrátt fyrir ótvíræð fyrirmæli í erfðaskrá Bahá’u’lláh um 'Abdu'l-Bahá sem leiðtoga samfélagsins eftir hans dag reyndu nokkrir ættingjar að sölsa undir sig forystuhlutverkið sem honum bar en höfðu ekki árangur sem erfiði. 'Abdu'l-Bahá tókst á hendur að kynna bahá‘í málstaðinn á Vesturlöndum og breytti honum úr fámennri hreyfingu í Miðausturlöndum í viðurkennd og mikilsvirt heimstrúarbrögð.
'Abdu'l-Bahá var áfram fangi Tyrkjaveldis eftir andlát Bahá’u’lláh. Með bréfum og beinum tengslum við átrúendur á Vesturlöndum sem ferðuðust til Palestínu hafði hann forystu um útbreiðslu trúarinnar utan Miðausturlanda. Fyrstu bahá’í pílagrímarnir úr Vesturheimi komu til hans í fangavistinni í ‘Akká árið 1898. Eftir byltinguna í Tyrklandi 1908 var hann loks leystur úr haldi. Í ágúst 1911 lagði hann upp frá Landinu helga í fjögurra mánaða heimsókn til Vesturlanda og kom þá bæði til Lundúna og Parísar. Þar hitti hann átrúendurna og ræddi daglega við þá um trúna og meginkenningar hennar.

Vorið eftir lagði 'Abdu'l-Bahá aftur upp ferð til Evrópu sem stóð í eitt ár, og síðan til Bandaríkjanna og Kanada. Heimsóknin jók útbreiðslu trúarinnar í báðum þessum löndum. Á ferðum sínum um meira en fjörutíu borgir í Norður-Ameríku var honum tekið með virðingu og viðurkenningu, bæði af fylgjendum og öðrum jöfnum höndum. Í borg eftir borg kynnti hann boðskap Bahá’u’lláh um einingu og félagslegt réttlæti fyrir blaðamönnum og embættismönnum, kirkjusöfnuðum, friðarsamtökum, félagsmönnum í verkalýðsfélögum og í háskólum. Hann var í tengslum við virta vísindamenn í Evrópu auk þess sem hann ræddi oft við almenning um þessi málefni.

Meginávinningurinn var sá að unnt varð að staðfesta bahá’í trúna sem stórkostlegt nýtt afl til félagslegra umbóta og trúarlegrar endurnýjunar. Boðskapur Bahá’u’lláh um frið og einingu á jörð hafði verið fluttur hinum iðnvædda heimi og ný kynslóð óhvikulla fylgjenda hans kom fram á sjónarsviðið.
Þegar heimsstyrjöldin fyrri braust út var 'Abdu'l-Bahá kominn heim til Landsins helga. Í ávörpum sínum á Vesturlöndum hafði hann varað við þeim mikla stríðsháska sem framundan var og bent ítrekað á nauðsyn þess að koma á samveldi sem gæti náð til alls heimsins og afstýrt heimsstyrjöld.

Meðan á stríðinu stóð varði 'Abdu'l-Bahá tíma sínum í að starfa samkvæmt meginkenningum Bahá’u’lláh um ást, eindrægni og þjónustu við mannkynið. Hann skipulagði meðal annars ræktunarframkvæmdir við borgina Tíberías sem varð til þess að koma í veg fyrir hveitiskort og hungursneyð í þeim landshluta meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð. Þetta varð þess að breska ríkisstjórnin heiðraði 'Abdu'l-Bahá að stríðinu loknu. Hann lést í Haifa 1921 og í erfðaskrá sinni útnefndi hann elsta dótturson sinn, Shoghi Effendi Rabbani, Vörð bahá’í trúarinnar.
 


Lýsing á 'Abdu'l-Bahá

Edward G. Browne, fræðimaður frá Cambridge, sem komst í kynni við 'Abdu'l-Bahá 1890 lýsir honum þannig:abdul_baha

"Sjaldan hef ég séð mann sem með útliti sínu einu saman hefur haft jafn sterk áhrif á mig. Hár, sterkbyggður, teinréttur, með hvítan túrban og í hvítum kufli, svart liðað axlarsítt hár, breitt og kröftugt enni sem gaf til kynna skarpar gáfur og ósveigjanlegan viljastyrk, haukfrán augu og sterka en viðfeldna andlitsdrætti. Þetta var það sem ég upplifði á mínum fyrsta fundi með 'Abbás Effendi, meistaranum, eins og hann er kallaður. Mælskari mann, rökfimari, fundvísari á myndrænar samlíkingar, gjörkunnugari helgiritum gyðinga, kristinna manna og múslima, held ég að vart verði fundinn, jafnvel meðal þess mælska, skarpskyggna og næmgeðja kynþáttar, sem hann tilheyrir. Þessir eiginleikar ásamt fasi, sem er hvorutveggja í senn tiginlegt og innilegt, gerðu það að verkum að ég hætti að undrast og þá virðingu sem hann naut langt utan samfélags fylgjenda föður hans. Um mikilleik þessa manns og vald hans gat enginn efast sem litið hafði hann augum."

‘Abdu’l-Bahá andaðist árið 1921, en þá hafði hann treyst undirstöður bahá’í trúarinnar og breitt hana út til mun fleiri manna. Herbergi norðan til í helgidómi Bábsins, þar sem hann er jarðsettur, er einn þeirra staða sem pílagrímar fara til þegar þeir heimsækja heimsmiðstöð trúar sinnar.


´Abdu'l-Bahá á yngri árum


 

 

dagskra
         
Bahá'í miðstöðin, Túngötu 11, 230 Reykjanesbær
gsm: 772 4878 - bahaitru@bahaitru.net